Innlent

Lágvöruverslanir berjast enn

"Það eru að ganga til baka lækkanir sem verið hafa í matvöru," segir Edda Rós Karlsdóttir, forstöðumaður greiningardeildar Landsbankans. Hún segir kostaboð á matvöru, sem vegi þungt í vísitöluútreikninga, hafa mikið haft að segja. Bankinn spáir nú 0,4 prósenta verðbólgu á milli mánaða, en þar er meðal annars horft til hækkana á matvöru. "Ég get ekki tekið undir að verðstríðið sé búið. Auðvitað er enn tekist á um hverjir eru ódýrastir. Við erum ekki að fara að hætta í þessu stríði," segir Hróar Björnsson, rekstrarstjóri Krónunnar. "Það er samt greinilegt að það eru Krónan og Bónus sem eru að slást um þetta og alveg óhætt að segja Kaskó og Nettó hafi bakkað vel út úr slagnum. Við ætlum að taka þátt í þessum slag áfram og erum búnir að skilgreina okkur sem lágvöruverslun og það kostar áframhaldandi átök." Guðmundur Marteinsson, framkvæmdastjóri Bónuss, tekur í svipaðan streng en telur þó einsýnt að minna verði um undirboð á borð við að fólk fái mjólkurlítrann á krónu, eða jafnvel gefins. "Ég held að svona bullverð séu úr sögunni, að minnsta kosti tímabundið. Þetta snýst náttúrlega um stöðugt lágt verðlag, enda skiptir það neytandann mestu máli," segir hann og telur augljóst að lágvöruverslanir haldi áfram að veita hver annarri aðhald. Guðmundur segir blöðin full af auglýsingum matvöruverslana þar sem kynntir séu afslættir og lágt vöruverð. Edda Rós segir að undanfarið hafi fasteignaverð einna helst ýtt undir verðbólgu, en nú komi einnig inn hærra bensínverð og svo hækkun á verði matvöru. Hún segir almennt gert ráð fyrir því að Seðlabankinn hækki stýrivexti um hálft prósent til viðbótar í september til að bregðast við aukinni verðbólgu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×