Innlent

Slippasvæði tilbúið 2010

Uppbygging Mýrargötu og slippasvæðis gæti verið lokið árið 2010 ef tillögur að rammaskipulagi verður að veruleika. Tillögurnar voru kynntar í gær á vel sóttum kynningarfundi í gamla Búrhúsinu við Grandagarð. Svæðið sem um ræðir nær frá Ægisgötu vestur að Ánanaustum og frá Vesturgötu og niður að sjó, segir Richard Briem verkefnisstjóri. Þá sé megnið af þessu svæði slippasvæðið gamla sem enn sé í notkun. Gert er ráð fyrir að legu Mýrargötu verði breytt og gatan lögð í stokk frá gatnamótum við Ægisgötu vestur að Ánanaustum. Ný Mýrargata verði lögð ofan á stokkinn til að dreifa umferðinni innan hverfisins. Reiknað er með þriggja til fimm hæða byggð að jafnaði en á ákveðnum stöðum verða leyfðar allt að sex til sjö hæðir. Gert er ráð fyrir 500 nýjum íbúðum og um 15.000 fermetrum af atvinnuhúsnæði. Meðal annars er gert ráð fyrir íbúðum aldraðra á Héðinsreit ásamt þjónustukringlu og hjúkrunardeild. Í húsum næst hafnarbakka er gert ráð fyrir atvinnustarfsemi eins og verslunum, listagalleríum og veitingastöðum á jarðhæðum en skrifstofum á efri hæðum. Í byggingum þar fyrir sunnan er gert ráð fyrir íbúðabyggð en jafnframt möguleika á atvinnuhúsnæði á jarðhæðum. Þetta eru þó einungis tillögur en gera verður breytingu á aðalskipulagi 2001-2024. Samkvæmt hugmyndum hópsins sem unnið hefur að tillögunum má búast við að rif á mannvirkjum hefjist á næsta ári og að fyrstu íbúarnir gætu flutt inn í lok árs 2009. Árið 2010 ætti því öllum framkvæmdum að vera lokið. Alla yfirlitsuppdrætti, greinargerðir og fylgigöng má nálgast á heimasíðu verkefnisins www.myrarg.is



Fleiri fréttir

Sjá meira


×