Innlent

Siglingaleiðin fyrir Horn lokuð

Siglingaleiðin fyrir Horn er lokuð og allar víkur frá Gjögri að Hornbjargi fullar af ís. Landhelgisgæslan kannaði hafísinn í dag og eru ísspangir víða fyrir norðan land. Hafísinn er úti fyrir öllu Norðurlandi: norður af Rauðanúpi er ísinn í um 15 sjómílna fjarlægð, um 20 sjómílur norður af Skagatá og um 17 sjómílur norður af Grímsey. Að sögn Auðuns Kristinssonar, yfirstýrimanns hjá Landhelgisgæslunni, er siglingaleiðin við Hornbjarg ófær. Hann segir að í raun séu allar víkur frá Gjögri og að Hornbjargi fullar af ís. Ísinn er að þétta sig upp við land og er víða mjög þéttur, færri vakir eru í honum og ísspöngin hefur breikkað frá u.þ.b. mílubreidd upp í 4-5 mílur. Skyggni var ágætt í könnunarfluginu. Ekkert lifandi var þó að sjá á ísnum. Sjófarendur sem tilkynnt hafa um ís segja landfastan ís við Straumnes og hann liggi eins langt og séð verður í norðaustur og suðvestur. Einnig hefur verið tikynnt um töluvert af jökum á Aðalvík. Grímseyingar segja dreifðan ís um allan sjó í kringum Grímsey, en þéttur ís sé hins vegar í nokkurra sjómílna fjhalræðg norðan við.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×