Innlent

Funda um ríkisborgararétt Fischers

Ríkisborgararéttur skákmeistarans Bobbys Fischer verður tekinn fyrir á fundi allsherjarnefndar Alþingis nú fyrir hádegi og vonast stuðningsmenn hans til þess að Fischer fái nú loksins íslenskan ríkisborgararétt með hraði. Sæmundur Pálsson, Sæmi rokk, og fleiri stuðningsmenn hafa verið kallaðir fyrir nefndina og munu þeir gefa skýrslu um ferð sína til Japans. Sæmundur segir að fullreynt sé að frelsa Fischer úr prísundinni. Það eina sem dugi sé íslenskur ríkisborgararéttur. "Ég trúi því illa að Íslendingar hætti við hálfklárað verk," segir hann. Guðrún Ögmundsdóttir þingmaður telur að Alþingi ætti að geta afgreitt ríkisborgararétt til Fischers á einum sólarhring. Í framhaldi af því ætti utanríkisþjónustan að geta frelsað Fischer. Sæmundur gerir ráð fyrir að fara til Japans að sækja vin sinn. "Ég vona að Japanir geri eins og þeir eiga að gera en það er ekkert treystandi á það," segir hann. Bjarni Benediktsson, formaður allsherjarnefndar, svaraði ekki skilaboðum í gær.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×