Innlent

Hjálmar fékk engar upplýsingar

"Þetta hlýtur að vera einhver misskilningur hjá Hjálmari eða óheppilegt orðalag," sagði Pétur Gunnarsson fulltrúi Framsóknarflokksins í útvarpsráði, spurður um ummæli Hjálmars Árnasonar alþingismanns í Íslandi í dag á Stöð 2 í mánudagskvöld. Þar sagði Hjálmar að Pétur hafi byggt sína ákvörðun um ráðningu fréttastjóra Útvarps á tilteknum persónuupplýsingum. Í sjónvarpsþættinum kvaðst Hjálmar vera "að svara fyrir Pétur Gunnarsson," eins og hann sagði orðrétt. "Pétur hafi haft "persónuupplýsingar sem ekki er hægt að draga fram í dagsljósið," og á þeim upplýsingum hafi hann byggt ákvörðun sína. Hann sagði að útvarpsráðsmenn fengju "ákveðnar upplýsingar" á borðið, mynduðu sér skoðun út frá þeim upplýsingum og leggðu þá afstöðu fyrir útvarpsstjóra. "Hjálmar fór ekki í neinn þátt til að svara fyrir mig," sagði Pétur. "Hann hefur engar upplýsingar úr ráðningaferlinu fengið frá mér, enda hefur trúnaður um þær verið fyllilega haldinn af minni hálfu." "Ég veit ekkert efnislega hvað er í trúnaðarupplýsingum sem lagðar eru fyrir útvarpsráð og vil ekki vita það," sagði Hjálmar. "En ég geri ráð fyrir að útvarpsráð og útvarpsstjóri byggi mat sitt á þeim upplýsingum og öðrum. Þeir horfa á heildarmyndina sem við sjáum ekki nema hluta af."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×