Innlent

Loðnuvertíðinni lokið

Loðnuvertíðinni lauk í nótt þrátt fyrir að rúmlega 180 þúsund tonn væru eftir af kvótanum. Það er þó ekki svo að sjómenn hafi ekki nennt þessu lengur, heldur kom í ljós um helgina að hrygningu var að ljúka en loðnan drepst að henni lokinni og fellur til botns. Síðustu skipin héldu af miðunum fyrir vestan land í nótt, áleiðis til heimahafna, ýmist tóm eða með einhverja slatta. Heildaraflinn er u.þ.b. 620 þúsund tonn en kvótinn var 803 þúsund tonn þannig að 183 þúsund tonn falla niður áveidd af vertíðinni. Þetta er heldur undir meðaltali síðustu 10-15 ára en telst þó alls ekki léleg vertíð þegar verðmætið af henni er skoðað því útflutningsverðmæti loðnuafurða af þessari vertíð er líklega um níu milljarðar króna. Þar munar mikið um hversu mikið var fryst til manneldis að þessu sinni en mun hærra verð fæst fyrir þær afurðir en fyrir loðnu sem fer í bræðslu. Loðnan hegðaði sér mjög óvenjulega eftir að hún gekk suður fyrir landið í vetur og þétti hún sig aldrei almennilega upp á grunninum eins og venjulega. Óvænt vestanganga kom þá til skjalanna og lífgaði upp á lokasprettinn. Botninn datt svo úr veiðunum um helgina og gáfu sjómenn endanlega upp vonina um frekari afla í nótt og héldu heim á leið.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×