Innlent

Enn beðið eftir FARICE sæstrengnum

Netnotendur Símans og OgVodafone hafa orðið varir við hægari umferð vegna þess að samband Íslands um FARICE sæstrenginn liggur niðri. Að sögn forsvarsmanna FARICE verður ekki gert við strenginn fyrr en aðfaranótt sunnudags. "Sæstrengurinn sjálfur er í góðu lagi," segir Guðmundur Gunnarsson, framkvæmdastjóri FARICE. "Sambandið er rofið vegna þess að ljósleiðari fór í sundur í landleiðinni Skotlandi. Bilunin er á mjög slæmum stað og erfitt að komast að henni vegna þess að strengurinn liggur yfir brú við Edinborg þar sem þarf að stöðva lestarumferð til að sinna viðgerðinni." Í yfirlýsingu frá Símanum kemur fram að bilunin hafi engin áhrif á talsímaumferð. Búið sé að komast fyrir truflanirnar sem urðu á netumferðinni með því að færa umferð yfir á eldri sæstreng en það var gert þegar í ljós kom að bilunin dragist á langinn. Þau svör fengust frá OgVodafone að bilunin hafi nákvæmlega sömu áhrif fyrir viðskiptavini OgVodafone og viðskiptavini Símans.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×