Innlent

Seilst djúpt í vasa íbúa

Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson. Sjálfstæðismenn gagnrýndu fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar harðlega í gær og telja hana dæmi um verk veikburða kosningabandalags.
Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson. Sjálfstæðismenn gagnrýndu fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar harðlega í gær og telja hana dæmi um verk veikburða kosningabandalags.

Fjárhagsáætlun R-listans afhjúpar veikburða og þreytt kosningabandalag sem ekki hefur tök á því að halda áfram að vera við völd eftir borgarstjórnarkosningarnar í vor. Þetta kemur fram í bókun sem borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins lögðu fram á borgarstjórnarfundi í gær.

Í áætlunum gerir R-listinn ráð fyrir því að lækka skuldir borgarinnar um milljarð króna auk þess sem töluverður afgangur verður af rekstrinum. Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson var harðorður í ræðu sinni og sagði R-listann enn einu sinni seilast djúpt ofan í vasa launa- og fjölskyldufólks.

"Útsvarið var hækkað í hámark, eða 13,03 prósent, á þessu ári, þrátt fyrir hagstætt rekstrarumhverfi. Að auki hafa fasteignaskattar verið að hækka einstaklega mikið í takt við hátt söluverð og hækkandi fasteignamat. Þar fyrir utan er Reykjavíkurborg núna að fá umfram tekjur vegna þessa árs upp á 800 milljónir króna, miðað við áætlanir. Að auki er gert ráð fyrir því að borgin hagnist um tvo milljarða á sölu á byggingarlóðum á þessu ári og næsta. Þá hafa skatttekjur borgarinnar hækkað um 100 þúsund krónur á hvern íbúa frá árinu 2000. Hreinar skuldir Reykjavíkurborgar, það er borgarsjóðs og fyrirtækja borgarinnar, eru áætlaðar rúmir 77 milljarðar króna í lok árs 2006, en samkvæmt nýlega samþykktri þriggja ára áætlun fyrir 2006-2008 áttu skuldirnar að vera 72 milljarðar í lok sama árs. Þetta sýnir að áætlanir R-listans eru ekki áreiðanlegar. Það sanna ótal mörg dæmi."

Vilhjálmur sagði markmið Reykjavíkurborgar um að lækka skuldir borgarinnar um milljarð króna í sjálfu sér ágætt.

"Hreinar skuldir borgarinnar eru að hækka um þrettán milljarða á þessu ári og næsta. Markmiðið er í sjálfu sér samt ágætt. Ef þetta tekst er það alls ekki vegna hagræðingar eða aðhalds, heldur fyrst og fremst vegna mikillar skattinnheimtu. Helmingurinn af þessari upphæð er vegna gengishagnaðar, þannig að þetta er viðkvæm staða fyrir borgina."

Steinunn Valdís Óskarsdóttir borgarstjóri er sannfærð um að fjárhagsáætlunin sýni að staða borgarinnar sé traust, þrátt fyrir harða gagnrýni minnihlutans í borgarstjórn.

"Það sjá það allir að það er ekki hægt að lækka tekjur og auka kostnað. Ég hef kallað það Villa-hagfræði þegar það er lagt fram að tekjur séu lækkaðar og kostnaður aukinn. Við erum eins og flest önnur sveitarfélög með útsvarið í botni en þjónustugjöld í lágmarki. Mér finnst vera farið að bera á því að menn séu komnir í yfirboð kosningaloforða. Fyrir tólf árum síðan eyddi þáverandi borgarstjóri tíu milljónum á dag í gæluverkefni í þá 75 daga sem hann barðist fyrir endurkjöri. Þessi yfirboð sjálfstæðismanna núna eru ekkert öðruvísi en menn unnu þá."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×