Innlent

Óvenju björt norðurljós

Meðalsterkur segulstormur sem kemur frá sólinni er ástæða norðurljósa sem árvökulir landsmenn hafa séð síðustu daga, að sögn Óla Þórs Árnasonar veðurfræðings. Óli segir að þrátt fyrir að styrkurinn sé aðeins meðalsterkur séu skilyrðin til að sjá norðurljósin hér við land góð. "Ísland er reyndar í syðri jaðrinum á norðurljósabeltinu sen nær einnig til Norður-Rússlands, Síberíu og allt til Alaska og Kanada." segir Óli. Kristján F. Olgeirsson íbúi við Suðurhlíð í Fossvoginum tók myndina hér til hliðar rétt um tíu leytið í fyrrakvöld. Hann segist ekki hafa séð jafn skýr norðurljós um margra ára skeið en þau hafi verið mjög sterk um tíu mínútna skeið. Kristján hefur starfað sem skipstjóri á verksmiðju- og krabbaskipum og sigldi milli Bandaríkjanna og Rússlands. Hann segist ekki hafa orðið mikið var við norðurljós á ferðum sínum við strendur Rússlands en þau hafi oft verið skýr við Alaska.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×