Lífið

Oprah forvitin um næturlífið

Þáttagerðarfólk á vegum sjónvarpskonunnar heimsfrægu Oprah Winfrey mun að öllum líkindum koma til landsins í vikunni og safna efni fyrir innslag um stöðu íslenskra kvenna sem sýnt verður í The Oprah Winfrey Show. Oprah sjálf mun því miður ekki sjá sér fært að heiðra landann með nærveru sinni að þessu sinni enda konan með eindæmum upptekin. Aðstoðarkonur hennar hafa hins vegar leitað víða fanga hérlendis og ráðfært sig við nokkrar nafntogaðar konur. "Ég veit ekki alveg hvað vakir fyrir þeim," segir söng- og leikkonan Selma Björnsdóttir sem einn útsendara Ophru hefur sett sig í samband við. "Ég held að hugmyndin sé að tala við nokkrar konur um stöðu kvenna á Íslandi. Þá var ég líka spurð hvort ég væri tilbúin til þess að fara með tökuliðinu í skoðunarferð um næturlíf Reykjavíkur." Selma segist hafa tekið vel í erindið en fulltrúi Ophru hafi ekki gengið endanlega frá neinu við sig. Andrea Róbertsdóttir er ein þeirra sem starfsfólk Ophru hefur leitað til vegna Íslandsheimsóknarinnar og það var hún sem benti á Selmu vinkonu sína. "Ég hélt fyrst að þetta væri eitthvað grín hjá Strákunum á Stöð 2 en ef svo er er þetta orðinn ansi langdreginn djókur," segir Andrea sem veit í raun ekkert hvernig á því stendur að Ophra hafði samband við sig. Auðunn Blöndal, einn af Strákunum á Stöð 2, þvertekur fyrir að hann og félagar hans standi á bak við fréttirnar af áformum Ophru. "Þetta er enginn hrekkur frá okkur. Pétur getur hermt eftir ýmsu en ekki Ophru," segir Auðunn. Ragnhildur Steinunn Jónsdóttir, fyrrum Ungfrú Ísland og einn þáttastjórnenda Ópsins á RÚV segist hafa verið í nánu sambandi við aðstoðarkonu Ophru: "Ég hef heyrt nokkrum sinnum í henni og hef talað við hana allt í tvo tíma í senn. Einu sinni varð síminn minn meira að segja rafmagnslaus vegna þess að hún talaði svo lengi. Ég hélt auðvitað fyrst að þetta væri grín." Ragnhildur Steinunn og Selma voru báðar beðnar um að senda myndir af sér til þáttarins sem og þær gerðu. Ég sendi helling af myndum af mér og svo horfðu þau á Ópið á netinu. Það hittist þannig á að í þættinum sem þau skoðuðu var ég að borða kókósbollu upp úr fiskabúri og ég veit nú ekki hvort það hefur komið nógu vel út."





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.