Innlent

Maersk Air í eigu Íslendinga

Danska flugfélagið Maersk Air er komið í eigu Íslendinga. Um leið er orðið til fjórða stærsta lággjaldaflugfélag Evrópu. Það var eignarhaldsfélagið Fons, sem á meðal annars Iceland Express og danska flugfélagið Sterling, sem keypti Maersk Air af A.P. Möller. Flugfloti félagsins fylgir þó ekki með í kaupunum en vélarnar verða leigðar nýjum eigendum Maersk í allt að sex ár. Ekki stendur þó til að A.P. Möller eigi vélarnar lengi. Ástæða sölunnar eru sú að rekstur Maersk hefur ekki gengið sérlega vel, og segja talsmenn A.P. Möller smæð félagsins lykilatriði í því samhengi. Nú sé það nátengt Sterling og því verði hægt að skapa hagstæðari rekstrareiningu sem getur keppt á samkeppnismarkaði. Sterling og Maersk mynda nú langstærsta lággjaldaflugfélag Norðurlanda og hið fjórða stærsta í Evrópu. Kaupin eru háð samþykki danskra samkeppnisyfirvalda en búist er við því innan tveggja mánaða. Maersk Air var stofnað árið 1970 og hóf þá þegar farþegaflug, bæði áætlunar- og leiguflug. Flogið er til þrjátíu og eins áfangastaðar frá Kaupmannahöfn og átta frá Billund. Flugflotin samanstendur mestmegnis af Boeign 737 og 757 vélum, sem ýmist eru í eigu A.P. Möller eða í leigu. Tólfhundruð manns starfa hjá félaginu, en búist er við uppsögnum í kjölfar samruna við Sterling, einkum í yfirstjórn félagsins. Eftir sameininguna verða þrjátíu vélar í flota Sterling, samkvæmt tilkynningu frá Sterling, og flogið verður til áttatíu áfangastaða. Almar Örn Hilmarsson, núverandi framkvæmdastjóri Sterling, verður framkvæmdastjóri sameinaða félagsins.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×