Innlent

Stuðmenn og Bubbi stíga á stokk

Á fimmtudagskvöld í næstu viku verða haldnir íslenskir góðgerðartónleikar líklega undir nafninu 8 Líf í miðborg Reykjavíkur til að vekja athygli á bágri stöðu þjóða í þriðja heiminum. Árni Snævarr sem starfar nú hjá Sameinuðu þjóðunum í Brussel hefur haft veg og vanda af skipulagningu tónleikanna og segir að grunnurinn sé tryggður með fjármögnun og nú þurfi bara að byggja ofan á hann. Reykjavíkurborg hefur tekið vel í umleitanir um aðstöðu og fjárstyrki og nokkur helstu stórfyrirtæki landsins hafa einnig verið nefnd til sögunnar. Stuðmenn og Bubbi Morthens hafa nú þegar staðfest þátttöku sína í tónleikunum og segir Árni að margir eigi enn eftir að bætast við. Árni segist ekki hafa rætt málið við Bob Geldof enn sem komið er í það minnsta en telur líklegt að hann eða Bono, söngvari U2 muni koma eitthvað nálægt þessum tónleikum. Jakob Frímann Magnússon stuðmaður sagði það hafa verið sér bæði ljúft og skylt að verða við því að spila á tónleikunum enda verðugt málefni þar á ferð. Hann segir það nauðsynlegt að knýja ríkisstjórnina til að leggja meira til þróunarmála. "Ég er nú það gamall að ég man eftir Live Aid 1985 og þá leit heimurinn öðruvísi út, við vorum miklu þröngsýnni og höfðum miklu minna sjálfstraust. Núna höfum við sjálfstraust, það verður bara að gera eitthvað með það", bætir Árni Snævarr við að lokum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×