Innlent

Tvö vopnuð rán í röð

Vopnað rán og tilraun til annars slíks voru gerð á höfuðborgarsvæðinu í fyrrinótt og í gærdag handtók lögreglan í Reykjavík konu um tvítugt sem grunuð er um ránið en lögreglan vill ekki gefa upp að svo stöddu hvort hún sé einnig grunuð um ránstilraunina. Tilraunin var gerð á veitingastaðnum American Style við Nýbýlaveg um klukkan hálf ellefu en þá ógnaði ung kona afreiðslustúlku með steikarhnífi og krafðist peninga. Lögreglan í Kópavogi telur líklegast að hún hafi fengið hnífinn á staðnum. Afgreiðslustúlkan forðaði sér inn í eldhús en vopnaða konan gerði þá sjálf misheppnaða tilraun til að opna peningahirslur. Starfsmenn hringdu strax í lögreglu en konan var horfin þegar lögreglumenn komu á vettvang. Um það bil hálftíma síðar var gerð samskonar tilraun í Lyfju við Lágmúla en þá var árásarkonan vopnuð sprautunál og náði nokkru magni af lyfseðilskyldum lyfjum. Hún var horfin þegar lögreglumenn komu að. Einnig handtók lögreglan í Reykjavík karlmann sem grunaður er um rán á rítalíni og öðrum lyfjum í Lyfju við Háaleitisbraut síðasta föstudag en hann var einnig vopnaður sprautunál.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×