Erlent

Qureia gerður afturreka

Ahmed Qureia, forsætisráðherra palestínsku heimastjórnarinnar, hét því í gær að leggja nýjan ráðherralista fyrir palestínska þingið. Þetta gerði hann eftir að ljóst varð að andstaða þingmanna við lítt breytta ríkisstjórn hans var svo mikil að vafi lék á því að hún yrði samþykkt á þinginu. Á upphaflega ráðherralista Qureia voru tuttugu menn úr fyrri stjórn og einungis fjórir nýir ráðherrar. Þetta olli mikilli óánægju og varð til þess að þingmenn hótuðu að neita stjórninni um staðfestingu. Qureia brást við mótmælum þingmanna með því að lofa að leggja nýjan ráðherralista fyrir þingið í dag til staðfestingar og sagði að á þeim lista yrðu nær eingöngu embættismenn og menn til að vinna ákveðin verkefni en sem fæstir stjórnmálamenn. Gangi þetta eftir verður það í fyrsta sinn sem leitað verður í miklum mæli út fyrir þann hóp manna sem starfaði náið með Jasser Arafat til að manna palestínsku heimastjórnina.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×