Lífið

Syngjandi tískufrömuður

Stjarna söngkonunnar Þórunnar Antoníu Magnúsdóttur er rísandi þessa dagana. Í nýjasta hefti glanstímaritsins Elle eru viðtöl við átta þokkadísir í tónlistargeiranum og er Þórunn Antonía þar á meðal, talin ein af flottustu ungpíunum í tónlistargeiranum. Í greininni mælir tímaritið Elle með því að fólk taki Þórunni Antoníu og hinar tónlistarkonurnar til fyrirmyndar. Þær eru upphafðar fyrir smartheit, flottan fatastíl og fyrir að þora að fara sínar eigin leiðir þegar kemur að klæðaburði. Í greininni segir Þórunn Antonía að hún klæðist aðeins fyrir sjálfa sig og ekki fyrir neinn annan. Fram kemur að hún hafi mjög glysgjarnan fatastíl og elski að klæða sig á sérstakan hátt. Þórunn Antonía er mjög hrifin af "vintage"-kjólum og á hún um hundrað stykki. Í viðtalinu segir Þórunn Antonía að það sé mikilvægt að leggja mikið upp úr klæðaburði þegar hún kemur fram. Hún segir að flottustu fötin fáist fyrir utan Lundúnir og mælir með svæðunum Didcot og Abingdon því þar sé hægt að hnjóta um ósnortið góss. Blaðamaður Elle spyr Þórunni Antoníu hvað sé það ljótasta sem hægt væri að kaupa sér þessa dagana. Hún var ekki lengi að svara því. Hún myndi aldrei ganga í þykku prjónaponsjói með rúllukraga. Þórunn Antonía er búsett í Lundúnum þar sem hún vinnur að eigin tónlist og syngur með hljómsveit sinni The Honeymoon. Þórunn Antonía er vel þekkt á Íslandi en hún er dóttir Magnúsar Þórs Sigmundssonar tónlistarmanns. Hún starfaði sem söngkona áður en hún hélt til Lundúna til að freista gæfunnar og gaf meðal annars út diskinn Those Little Things.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.