Mark Hughes, stjóri Blackburn segir að tími sé til kominn að innleiða vetrarfrí í ensku úrvalsdeildinni og segir að álagið á liðin í deildinni sé fáránlegt í kring um hátíðarnar, þar sem hans menn spila meðal annars fjóra leiki á átta dögum.
"Þetta leikjaálag hjá okkur yfir hátíðarnar er orðið fáránlegt og eina huggun okkar er sú að öll liðin í deildinni þurfa að ganga í gegn um það sama. Það er einfaldlega óraunhæf krafa á leikmenn að spila hvern einasta leik á þessum tíma af fullum krafti. Það eina sem maður getur vonað er að þeir meiðist ekki alvarlega, en svo rekur maður þá bara út á völlinn strax aftur. Vetrarhlé væri eitthvað sem mundi leyfa mönnum að ná aðeins áttum og ég held að menn ættu að skoða hvort það er mögulega hægt," sagði Mark Hughes.