Innlent

Vísar fullyrðingunum á bug

Forstjóri Útlendingastofnunar vísar algerlega á bug fullyrðingum átta hælisleitenda sem saka íslensk stjórnvöld um seinagang í þeirra málum. Hún segir vinnslu mála af þessu tagi oft flókna og taka langan tíma þar sem rangar upplýsingar séu oft gefnar. Í fréttum Stöðvar 2 í gærkvöldi var greint frá átta hælisleitendum sem héldu í kröfugöngu og kröfðust úrlausn sinna mála. Sögðu þeir að íslensk stjórnvöld litu ekki á þá sem mannverur og kröfðust úrbóta. Forstjóri Útlendingastofnunar segir að mismunandi sé í hvaða farveg málsmeðferð hælisleitenda sem koma hingað til lands fari. Upplýsingar geti oft verið af mjög skornum skammti og viðkomandi oft ekki með skilríki meðferðis. Málsmeðferðin markist talsvert af því hversu miklar upplýsingar liggi fyrir í upphafi og oft og tíðum frá hvaða landi viðkomandi komi. Til sumra ríkja sé fólk nefnilega ekki sent aftur vegna ástandsins þar. Hildur segir að umönnun hælisleitanda sé í því fólgin að þeim sé séð fyrir húsnæði og fæði og nú, í kjölfar þess að umönnunin sé komin á könnu Reykjanesbæjar, hafi þeir aðgang að öllu því sem bærinn hafi upp á að bjóða. Hún segir að Ísland standi sig mjög vel í þessum málum miðað við nágrannalöndin þar sem ferlið taki mun lengri tíma. „Eins og nú er verið að tala um 9-10 mánuði hjá einhverjum einstaka aðilum, það er í rauninni mjög skammt," segir Hildur.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×