Innlent

Veiðimenn tregir að sleppa

Laxveiði hefur farið rólega af stað í ár ef undan er skilin veiði í Norðurá þar sem yfir fjögur hundruð laxar hafa komið á land, að sögn Páls Þórs Ármanns formanns Stangaveiðifélags Reykjavíkur. Laxá í Kjós hefur ekki reynst gjöful og þar hafa aðeins veiðst um sjötíu laxar það sem af er sumri en áin virðist þó vera að taka við sér. Þrátt fyrir vonir um gott laxveiðisumar er það mörgum áhyggjuefni hvað lítið ber á tveggja ára laxi og telur Stefán Jón Hafstein, stóráhugamaður um laxveiði með meiru, að stórlaxinn sé hreinlega í útrýmingarhættu. Hann telur að veiðimenn hafi ekki tekið tilmælum um að sleppa stórlaxi nógu alvarlega. Fyrir norðan er laxveiðin öll að komast á skrið að sögn Sigurðar Ringsted, formanns Stangaveiðifélagsins Flúða. Til að mynda voru tólf laxar komnir á land í Fnjóská en í öllum júnímánuði í fyrra höfðu aðeins þrír laxar veiðst. Hún er greinilega sein til því í fyrra veiddust 440 laxar í ánni.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×