Innlent

Stækkun Norðuráls á Grundartanga

Framkvæmdir við stækkun Norðuráls á Grundartanga ganga mjög vel. Nýtt fimmtíu metra hátt súráls-síló hefur verið reist á mettíma og vinna við kerskála hefur gengið vonum framar. Framkvæmdir við stækkun Norðuráls eru í fullum gangi. Þær eru gríðarlega umfangsmiklar því í verkefnið í heild fara yfir fjörutíu þúsund rúmmetrar af steypu og meira en fjögur þúsund tonn af burðarstáli, en rúmlega þrjú hundruð manns vinna nú við stækkunina. Fyrir þremur mánuðum var samið við Ístak um að reisa nýtt fimmtíu metra hátt súráls-síló á Grundartanga, og vinnur fjöldi manna þar efst uppi, við erfiðar aðstæður. Uppsteypa við sílóið hófst fyrir sextán dögum. Um þrjú þúsund rúmmetra þarf að steypu og aðeins hefur tekið 17 daga að reisa það. Brynjar Brjánsson segir að ekkert sé gefið eftir við uppsteypuna og unnið allan sólarhringinn á tveimur vöktum í þessu. Upphaflega var gert ráð fyrir að stækka Norðurál í 180 þúsund tonn, en álfyrirtækið gerði viðbótarorkusamning við Orkuveitu Reykjavíkur og Hitaveitu Suðurnesja, sem gerir því kleift að framleiða 212 þúsund tonn á ári, og alls 260 þúsund tonn árið 2008. Brynjar segir framkvæmdirnar hafa gengið ákaflega vel fyrir sig og að vinna hafi hafist við stækkunina í lok september 2004. Allar áætlanir standist og gert sé ráð fyrir að framkvæmdunum ljúki um mitt næsta ár og hann gerir ráð fyrir að farið verði að bræða fyrsta málminn fyrri hluta næsta árs.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×