Innlent

Sjálfsvígum karla hefur fækkað

Sjálfsvígum karla hefur fækkað undanfarin þrjú ár en ekki sjálfsvígum kvenna. Landlæknir kynnti í dag átakið „Þjóð gegn þunglyndi“. Átakið hefur formlega verið starfrækt í tæp tvö ár. Hvati verkefnisins var upphaflega sá að tíðni sjálfsvíga hafi færst niður í æ yngri aldurshópa og þá sérstaklega á meðal karlmanna. Sjálfsvíg eru nátengd þunglyndi og öðrum alvarlegum geðröskunum. Síðustu ár hefur þó orðið marktæk fækkun á sjálfsvígum karla 24 ára og yngri en sjálfsvíg kvenna hafa staðið í stað. Ástæður eru ekki ljósar en veðurfar, efnahagsástand, meðvitaðri aðstandendur, forvarnir vegna vímuefnafíknar og betri greining eru taldar meðal ástæðna þess að sjálfsvígum fækkar. Áherslur verkefnisins, sem stutt er af Evrópusambandinu, eru tvíþættar. Annars vegar er markmiðið að auka færni og þekkingu fagfólks á sviði þunglyndis og sjálfsvíga og stuðla að betri tengslum þeirra sem starfa að þessum málum utan og innan stofnana. Hins vegar er markmiðið að bæta þekkingu almennings á þunglyndi og sjálfsvígshegðun og um leið að draga úr fordómum. Það kemur á óvart að ekki er marktækur munur á milli mánaða þegar kemur að þessum málum en oft hefur því verið haldið fram að sjálfsvíg séu aðallega framin þegar dagurinn er hvað stystur.   



Fleiri fréttir

Sjá meira


×