Innlent

Karlar leita sér frekar hjálpar

Meginástæða þess að sjálfsvígum karla hefur fækkað á undanförnum árum er að þeir eru frekar tilbúnir að ræða vandamál sín og leita sér hjálpar en áður. Þetta segir landlæknir. Verkefnið Þjóð gegn þunglyndi hefur nú formlega verið starfrækt í tæp tvö ár. Hvati verkefnisins var upphaflega sá að tíðni sjálfsvíga hafði færst niður í æ yngri aldurshópa og þá sérstaklega meðal yngri karlmanna. Síðustu ár hefur hins vegar orðið breyting á málum þessum og hefur sjálfsvígum karla fækkað verulega undanfarin þrjú ár, sérstaklega 24 ára og yngri. Það kemur aftur á móti á óvart að sjálfsvíg kvenna standa í stað. Sigurður Guðmundsson landlæknir segir enga góða skýringu á því liggja fyrir. Það geti þó verið að þarna spili inn í að sjálfsvíg kvenna séu mun færri og því erfiðara að mæla breytingu. Á árinu 2004 voru sjálfsvíg karla 13,6 á hverja 100 þúsund íbúa en voru 22,5 á árinu 2001. Landlæknir segir ekkert eitt svar við því hvers vegna sjálfsvígum karla hefur fækkað. Hann segir þó veðurfar, efnahagsástand, meðvitaðri aðstandendur, forvarnir vegna vímuefnafíknar og betri greiningu eflaust hafa hjálpað til. Þá segir hann karla mun viljugri í dag til að leita sér hjálpar en áður því sjálfsvíg séu mun meira rædd í samfélaginu en áður. Þar til fyrir nokkrum árum hafi þeim verið „stungið undir stól“. Og landlæknir er bjartsýnn um að sjálfsvígum muni fækka enn frekar í framtíðinni.   Landlæknir segir helsta markmið átaksins að bæta þekkingu almennings á þunglyndi og sjálfsvígshegðun og um leið að draga úr fordómum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×