Erlent

Íbúar New Orleans snúa ekki aftur

Tugþúsundir manna hafa yfirgefið heimili sín í nágrenni Flórída vegna hitabeltisstormsins Rítu sem gengur líklega þar yfir síðar í dag. Borgarstjórinn í New Orleans hefur hætt við að leyfa íbúum að snúa aftur af ótta við frekari flóð í borginni.  Ríta nálgast nú Flórída og er óðum að ná styrk fellibyls. Þegar hefur tæplega hundrað þúsund manns verið skipað að fara burt og tugþúsundir til viðbótar hafa verið hvattir til að vera á varðbergi í dag og tilbúnir til að yfirgefa heimili sín í skyndi ef svo ber undir. Spáð er að vindhraði Rítu geti náð allt að fimmtíu metrum á sekúndu í dag þegar hún gengur yfir Flórída og nágrenni. Starfsemi í fjölmörgum skólum og opinberum byggingum hefur legið niðri í dag. Fólk hefur síðan í gær neglt fyrir glugga og hamstrað nauðsynjar, eins og svo oft áður í Flórída þar sem fellibyljir eru árlegur viðburður. Borgarstjórinn í New Orleans gaf í gær grænt ljós á að hluti íbúa borgarinnar sneri aftur. Í gærkvöldi var svo horfið frá þeirri ákvörðun, af ótta við frekari flóð af völdum Rítu sem gætu brotið flóðvarnir sem þegar eru veikar fyrir.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×