Innlent

Kleifarvatnshrina að ganga niður

Klukkan hálf átta í gærmorgun reið yfir jarðskjálfti upp á 3,5 á Richter við vestanvert Kleifarvatn á Reykjanesi. Sekúndu fyrr mældist annar um 2,5 á Richter. Að sögn Steinunnar S. Jakobsdóttur, deildarstjóra hjá Veðurstofunni, virtist hrinan í gær vera að ganga niður með eðlilegum hætti. Skjálftavirkni hófst um klukkan þrjú í fyrrinótt. "Við sjáum enga sérstaka fyrirboða í þessu, en fylgjumst vitanlega vel með," segir Steinunn og telur ekki loku fyrir það skotið að hrinan nú sé hluti af einhverri spennutilfærslu vegna skjálftahrinunnar sem stóð yfir út af Reykjaneshrygg fyrir um mánuði. Hún bendir jafnframt á að fyrir um tveimur árum hafi orðið hrina á svipuðum slóðum við Kleifarvatn, en stærsti skjálftinn þá mældist rúmlega fjórir á Richter. "Í júlí í fyrra mældist líka allnokkur hrina við Fagradalsfjall, nokkuð vestar á Reykjanesskaga. Þá mældust nokkur hundruð skjálftar á nokkrum dögum, en enginn þeirra náði stærðinni þremur," segir Steinunn.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×