Lífið

Fer sína eigin leið

Bryndís Jakobsdóttir er ungur söngfugl enda dóttir Ragnhildur Gísladóttur og Jakobs Frímanns Magnússonar. Hún virðist hafa fengið tónlistaráhuga í vöggugjöf og eins og kom fram í DV í gær er hún á leið til London í vikunni að syngja fyrir nokkra í bransanum. "Þetta eru einungis frumþreifingar kornungrar stúlku á þessu sviði. Áhugi landans á hljómi raddar hennar er ef til vill skiljanlegur en þetta er gríðarleg pressa á ungan og óharnaðan ungling og því viljum við sem minnst að um þetta sé fjallað á þessu stigi, þó að DV hafi haft eyrað jafn nálægt grassverðinum og raun ber vitni," segir Jakob Frímann Magnússon. Jakob segir fyrirtækið Sony Music Publishing hafa sýnt áhuga á að vinna með henni. "Svona ferli getur tekið allt frá einu ári og upp í fimm ár svo þetta er rétt að byrja. Þetta eru allt einungis hugmyndir og drög og það kemur í ljós hvort þetta verður að veruleika. Menn geta orðið sammála því að semja en svo getur það gerst að ekkert verði af samningum." Bryndís hefur verið syngjandi síðan hún var lítil og lærði bæði á píanó og selló. Hún var einnig orðuð við Nylon hópinn þegar hann var skipaður. "Það kom til tals að hún væri í Nylon en kaus að feta sína eigin leið. Einari Bárðarsyni hugnaðist mjög vel það sem hann sá og heyrði og í kjölfarið fórum við að skoða hvað hægt væri að gera. Hún kaus svo að gera þetta og semja þá tegund af músík sem er byggð á hennar eigin músíkáhrifum. Þetta er samt allt nýtt og skammt á veg komið. Það gæti verið hálft ár eða lengra í að komi út lag," segir Jakob.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.