Innlent

Grænfriðungar herja á rækjuskip

Grænfriðungar hafa undanfarna daga herjað á rækjuskipið Pétur Jónsson, sem er að veiðum á Flæmska hattinum. Skipstjórinn segist ekkert skilja í þeim. Grænfriðungar stunda það mjög að taka myndir af aðgerðum sínum og senda alþjóðlegum fjölmiðlum ókeypis í áróðursskyni. Þann leik eru þeir nú að leika við Pétur Jónsson RE 69 sem er á rækjuveiðum á Flæmska hattinum. Í tilkynningu sem Grænfriðungar sendu með myndum af því þegar þeir voru að nudda sér utan í Pétur Jónsson segir að þeir séu meðal annars að mótmæla bornvörpuveiðum. Eiríkur Sigurðsson, skipstjóri á Pétri Jónssyni., hló þegar hann heyrði þá skýringu. Hann sagði í samtali við fréttastofu Stöðvar 2 að ef svo væri ættu þeir að fá sér nýjan siglingafræðing sem gæti lóðsað þá á stað þar sem væru einhverjir kórallar eða eitthvað slíkt. Botninn þar sem þeir séu að veiðum sé rennisléttur og ekkert nema sandur og grjót. Grænfriðungar segjast einnig vera að mótmæla því að Norðvestur-Atlantshafsfiskveiðinefndin hafi ekki sett kvóta á rækjuveiðar á Flæmska hattinum. Þess í stað hafi verið ákveðinn fjöldi veiðidaga og veiðiskipa aðildarþjóðanna. Tæpast er það Pétri Jónssyni RE 69 að kenna en það verður að viðurkennast að myndirnar eru fjári góðar. Og svo eru þær líka ókeypis.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×