Innlent

HR velur Vatnsmýrina

Háskólinn í Reykjavík hefur ákveðið að Vatnsmýrin verði framtíðarsvæði skólans og mun yfirstjórn háskólans nú taka upp formlegar samningaviðræður við Reykjavíkurborg um uppbyggingu háskólans og tengdrar starfsemi á svæðinu. Þetta kemur fram í tilkynningu frá skólanum. Svæðið sem um ræðir liggur undir Öskjuhlíðinni á milli Hótels Loftleiða og Nauthólsvíkur. Tvö svæði voru í boði, annars vegar Urriðaholt í Garðabæ og hins vegar Vatnsmýrin í Reykjavík. Hið nýja háskólasvæði verður steinsnar frá miðborg Reykjavíkur og samgöngumiðstöð höfuðborgarsvæðisins. Gert er ráð fyrir að framkvæmdir við háskólahverfið hefjist árið 2006 en að háskólinn taki þar til starfa haustið 2008 og að nemendur verði þá ríflega 3.000 og starfsmenn um 200. Í tilkynningunni segir að bæði svæðin hafi verið afar álitleg að mati forráðamanna Háskólans í Reykjavík en staðsetningin í Vatnsmýrinni skammt frá því þekkingarsamfélagi og rannsóknarstofnunum sem þar eru og verða í framtíðinni hafi gert útslagið. Framtíðarsýn Háskólans í Reykjavík sé að byggja upp alþjóðlega menntastofnun, sem verði fyllilega sambærileg við bestu háskóla erlendis í viðskiptafræði, lögfræði, stjórnendamenntun, verkfræði, tölvunarfræði, tæknifræði, kennslufræði og á fleiri sviðum. Staðsetning í Vatnsmýrinni styðji við þá framtíðarsýn.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×