Innlent

Háskólinn í Vatnsmýrina

Háskólinn í Reykjavík mun byggjast upp í Vatnsmýrinni og verður því ekki Háskólinn í Reykjavík í Garðabæ. Þetta var niðurstaða forráðamanna Háskólans í Reykjavík sem kynnt var í gær. Áætlað er að hefja framkvæmdir í lok árs 2006 og að starfsemi hefjist á nýjum stað, á milli Hótels Loftleiða og Nauthólsvíkur, haustið 2008. Þá er gert ráð fyrir að nemendur verði um 3.000 og starfsmenn um 200. Valið stóð á milli Vatnsmýrarinnar og Urriðaholts í Garðabæ. Sverrir Sverrisson, formaður háskólaráðs Háskólans í Reykjavík, sagði að eftir að forráðamenn skólans hefðu farið yfir kostina tvo á grundvelli vinnu þriggja óháðra ráðgjafa; Línuhönnunar, VSÓ ráðgjafar og sérfræðinga frá Rickes Associates í Boston, hafi þetta verið samhljóða niðurstaða. Það sé þeirra trú að þarna sé framtíð skólans betur borgið. Þeir þættir sem hafðir voru að leiðarljósi hafi verið tækniþróun, nýsköpun og samstarf. Í Vatnsmýrinni verði stutt í vísindagarða sem eiga að rísa og í Háskóla Íslands, en Sverrir reiknar með samstarfi skólanna í framtíðinni. "Við reiknum með að rannsóknastofnanir komi til okkar, þannig að þetta verður þekkingarsvæði. Þarna verður góður garður fyrir rannsóknir og eflingu á vísindastarfi og þekkingu í framtíðinni." Í fréttatilkynningu segir að framtíðarsýn Háskólans í Reykjavík sé að byggja upp alþjóðlega menntastofnun sem verði fyllilega sambærileg við bestu háskóla erlendis í viðskiptafræði, lögfræði, stjórnendamenntun, verkfræði, tölvunarfræði, tæknifræði, kennslufræði og á fleiri sviðum. Staðsetning í Vatnsmýrinni styðji við þá framtíðarsýn. Guðfinna Bjarnadóttir, rektor Háskólans í Reykjavík, fagnar ákvörðuninni og segist sannfærð um að þetta hafi verið rétta valið. Nú munu hefjast formlegar viðræður við Reykjavíkurborg um uppbyggingu háskólans og tengdrar starfsemi á svæðinu. Steinunn Valdís Óskarsdóttir borgarstjóri segir að meðal þess sem eigi eftir að semja um sé stærð svæðisins sem skólinn fái til yfirráða og hversu mikið hann muni greiða í gatnagerðargjöld til borgarinnar.
Við Nauthólsvíkina Konur í Sjálfstæðisflokknum hafa sagt útivistarsvæði hverfa fái skólinn þarna lóð. Borgarstjóri segir ætlunina að stækka útivistarsvæðið við Nauthólsvík um fimm Austurvelli.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×