Erlent

Ásakar Íransstjórn og Hizbollah

Tony Blair, forsætisráðherra Bretlands, telur að Íransstjórn eða Hizbollah-hreyfingin styðji við bakið á íröskum uppreisnarmönnum. Ummæli Blair í gær koma í kjölfar ásakana bresks embættismanns sem í fyrradag hélt því fram að íranski byltingarherinn léti uppreisnarmönnum sprengiefni í té sem síðan væru notuð gegn breskum hermönnum í Írak. Forsætisráðherrann vildi hins vegar ekki taka svo sterkt til orða sjálfur heldur tók hann svo til orða að vísbendingar væru um tengsl stjórnarinnar í Teheran eða Hizbollah við íraska uppreisnarmenn. Engu að síður var Blair harðorður í garð Írana og sagði að Bretar létu ekki fæla sig frá að taka á kjarnorkuáætlun þeirra föstum tökum. Íranska ríkisstjórnin „neitar staðfastlega þessum furðulegu ásökunum," að því er opinber fréttastofa íslamska lýðveldisins hermdi í gær. Talsmenn Hizbollah-samtakanna, sem starfa í Líbanon en Íranar hafa alla tíð styrkt, vísa sömuleiðis ummælunum á bug og segja þau aðeins yfirklór til að beina athyglinni frá „getuleysi hernámsaflanna við að hemja uppreisnina í Írak."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×