Erlent

Hvíta húsið gæti stöðvað lögin

Öldungadeild Bandaríkjaþings hefur samþykkt með yfirgnæfandi meirihluta atkvæða að herða reglur um meðferð fanga sem stjórnin hefur í varðhaldi. Talsmaður Hvíta hússins segir að forsetinn muni beita neitunarvaldi til að stöðva frumvarpið. Repúblikanar og demókratar í öldungadeildinni tóku höndum saman í fyrradag og samþykktu lagafrumvarp um meðferð fanga í haldi stjórnarinnar með níutíu atkvæðum gegn níu. Á meðal þeirra sem greiddu atkvæði með frumvarpinu voru Colin Powell og John M. Shalikashvili, fyrrverandi forsetar herforingjaráðsins. Samkvæmt lögunum verður fortakslaust bann lagt við „grimmilegri, ómannúðlegri eða niðurlægjandi meðferð eða refsingu á föngum í haldi Bandaríkjastjórnar". Miklar deilur hafa staðið yfir undanfarin misseri um þessi mál í Bandaríkjunum og víðar, ekki síst eftir að upp komst- um misþyrmingar á föngum í fangelsum Bandaríkjahers í Írak og á Kúbu. John McCain, öldungardeildarþingmaður repúblikanaflokksins frá Arizona og fyrsti flutningsmaður frumvarpsins, sagði í loka-ræðu sinni í umræðum um frumvarpið, brýnt að skýrar reglur giltu um meðferð fanga. „Óskýrar reglur leiða af sér misnotkun á vettvangi." McCain, sem sjálfur var stríðsfangi í Víetnam, bætti því við að hann og félagar hans hefðu þurft að sæta margs konar misþyrmingum á sínum tíma en tilhugsunin um að þeir væru þegnar lands sem ekki beitti misþyrmingum hefði veitt þeim styrk. Scott McClellan, talsmaður -Hvíta- hússins, sagði á blaðamannafundi í kjölfar samþykktarinnar, að lögin byndu hendur forsetans á stríðstímum og að „með því yrði mælt að hann hafnaði staðfestingu þeirra." Um leið yrðu tillögur um framlög til hersins, alls 26 þúsund milljarðar -króna, stöðvaðar þar sem þær eru hluti af sama frumvarpi. Undanfarnar vikur hafa ráðherrar í ríkisstjórninni, til dæmis Dick Cheney varaforseti, reynt að beita þingmenn þrýstingi svo að þeir samþykki ekki lögin. Sú vinna virðist nú unnin fyrir gýg.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×