Erlent

Öflugri heimild til valdbeitingar

Framkvæmdastjóri NATO segir að friðargæsluliðar í Afganistan þurfi öflugri heimildir til valdbeitingar og að auka þurfi samvinnu milli friðargæsluliða NATO og hersveita Bandaríkjamanna. Sjö íslenskir friðargæsluliðar eru í norðanverðu landinu og sjö til viðbótar fara utan í næstu viku. Jaap de Hoop Scheffer, framkvæmdastjóri NATO, er á ferð um Afganistan. Fyrir honum liggur að finna leið til að sameina aðgerðir friðargæsluliða NATO og hersveita Bandaríkjamanna undir einum hatti, jafnvel þó að verkefnin séu ólík. Scheffer segir að NATO færir starfssvið til suðurhluta Afganistans, þ.e. til Kandahar og héraðanna í kring. Þar muni friðargæslu- og uppbyggingarsveitir starfa, en þær þurfi á reglum að halda um það hvernig þær eigi að bregðast við í mismunandi aðstæðum. Starf uppbyggingarsveitanna sé í ætt við hernað gegn skæruliðum því enn þurfi að berjast gegn uppreisnaröflum. Framkvæmdastjóri NATO heimsótti í gær herstöð Litháa í Chaghcharan í Afganistan, en þar verða sjö íslenskir friðargæsluliðar staðsettir. Þeir fara þangað í næstu viku. Íslendingarnir verða hluti af stórefldu liði NATO í Afganistan. Nú er í undirbúningi að fjölga friðargæsluliðum úr 10 þúsund upp í allt að 15 þúsund manns en Bandaríkjamenn vilja fækka í herafla sínum, sem telur nú 20 þúsund manns, vegna anna annars staðar í heiminum. Margt bendir til að þunginn í starfsemi erlendu herjanna í Afganistan sé að færast frá bandarísku hersveitunum yfir til vopnaðra friðargæslusveita NATO. Á sama tíma ætlar NATO að taka að sér aukin verkefni í sunnanverðu Afganistan þar sem talibanar eru enn virkir. Samfara þessu segir de Hoop Scheffer að friðargæsluliðar þurfi öflugri heimildir til beitingar vopna. Talsmenn NATO og íslenska utanríkisráðuneytisins segja að jafnvel þótt þessar auknu heimildir nái til íslensku friðargæsluliðanna, jafnt sem annarra, þá séu þeir staðsettir á tiltölulega rólegum stöðum og því muni auknar heimildir í raun ekki hafa áhrif á þá. Talsmaður NATO, Carmen Romero, sagði samt að friðargæsluliðar verða að vera vopnaðir til að geta varið bæði sjálfa sig og óbreytta borgara sem þeim fylgja. Frá Afganistan er það annars að frétta að nú er búið að telja atkvæði í nokkrum kjördæmum í nýafstöðnum þingkosningum. Meðal þeirra sem þegar hafa tryggt sér þingsæti er 27 ára kona sem er þekkt fyrir gagnrýni sína á valdamikla héraðshöfðingja. Svo kann að fara að konur verði í oddaaðstöðu á nýju þingi.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×