Erlent

Howard brýnir flokkinn gegn Brown

Michael Howard, fráfarandi leiðtogi breska Íhaldsflokksins, hvatti í lokaræðu sinni á flokksþinginu í Blackpool í gær til einingar flokksmanna nú er þeir leita nýs leiðtoga.Howard tók í sama streng og flokksbræður hans sem keppast um að taka við af honum, og sagði flokkinn verða að beina spjótum sínum að Gordon Brown, manninum sem búist er við að taki við af Tony Blair sem leiðtogi Verkamannaflokksins fyrir næstu þingkosningar sem væntanlega fara fram árið 2009. „Bretland á betra skilið en það sem það hefur í dag og það er ykkar skylda að breyta því," sagði Howard. Slagurinn um leiðtogastólinn skyggði á allt annað á hinu árlega flokksþingi, sem stóð í fjóra daga í borginni Blackpool í norðanverðu Englandi. Ógerlegt þykir á þessu stigi að segja fyrir um hver keppinautanna fimm verður hlutskarpastur. Sá sem hingað til hefur þótt sigurstranglegastur, David Davis, þótti halda hálfmisheppnaða ræðu. Keppinautunum, Kenneth Clarke, David Cameron, Sir Malcolm Rifkind og Liam Fox, tókst öllum betur upp.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×