Innlent

Ólöglegar uppsagnir Varnarliðsins

Landssamband slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna telur að Varnarliðið standi ólöglega að uppsögnum slökkviliðsmanna á Keflavíkurflugvelli með full réttindi. Félagið ætlar að leita réttar síns að sögn Vernharðs Guðnasonar, formanns félagsins. Vernharð segir að verið sé að segja upp starfsmönnum með langa starfsreynslu og lögvarin réttindi. Hins vegar halda ýmsir starfinu sem hafa unnið mun skemur á flugvellinum og hafa ekki þessi réttindi. Lögfræðingur Landssambands slökkviliðsmanna skoðar nú réttarstöðu félagsmanna. Uppsagnirnar eru mikið áfall fyrir starfsmenn vallarins að sögn Vernharðs. „En við erum miklir fagmenn þannig að ég treysti mínum mönnum til að leysa þau verk sem þarna þarf að leysa. Engu að síður er vinnustaðurinn mjög brothættur eftir svona,“ segir Vernharð. Sautján slökkviliðsmönnum var sagt upp á mánudag og sautján til viðbótar hafði verið sagt upp áður en hluti þessara manna flokkast undir snjóruðningsdeildina. Eins og komið hefur fram hafa flugumsjónarmenn lýst áhyggjum af þessari fækkun sem kemur til fullrar framkvæmdar í sumar en ekki fer verulega að reyna á nýtt skipulag slökkviliðsins og snjóruðningsdeildarinnar fyrr en næsta vetur.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×