Innlent

Grilluðu naut í heilu lagi

Um 4.000 manns eru saman komnir á Landsmóti skáta á Úlfljótsvatni og hafa skátar reist lítið þorp á staðnum í tilefni mótsins, sem haldið er þriðja hvert ár. "Þetta gengur mjög vel hjá okkur, veðrið leikur við okkur og hér er mikið um að vera. Á dagskránni, sem státar af hvorki meira né minna en 54 dagskrárliðum, getur hver fundið eitthvað við sitt hæfi," segir Andrea Margrét Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri landsmótsins í ár. Skátarnir hafa því brallað margt um helgina og meðal annars fóru þeir í heimsókn á Nesjavelli, börðust hetjulega í vatnsbardaga, héldu heljarinnar flugeldasýningu og grilluðu naut í heilu lagi. Auk þess hafa söngkonan Hildur Vala og stúlknasveitin Nylon leikið fyrir dansi. Á laugardag var sérstakur heimsóknardagur og þá voru um 8.000 manns rennandi í gegnum svæðið og einnig eru staddir á mótinu um 750 erlendir skátar alls staðar að úr heiminum. "Í kvöld er lokakvöld mótsins, sem verður slitið á morgun. Hljómsveitin Á móti sól mun leika fyrir dansi og munu skátar þá fagna, dansa og syngja fram á rauða nótt," segir Andrea.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×