Erlent

Flugöryggi gagnrýnt

Flugöryggi í Nígeríu er nú harðlega gagnrýnt eftir enn eitt stóra flugslysið í landinu í gær, þar sem yfir eitt hundrað manns fórust.

Enn er ekki ljóst hverjar eru orsakir slyssins, en svo virðist sem vélin hafi ekki hitt á brautina í lendingu í borginni Port Harcourt í gær. Hún var á vegum Sosoliso-flugfélagsins, sem flýgur innanlands á milli Lagos og annarra borga í Nígeríu.

Skelfingu lostnir foreldrar hópuðust á flugvöllinn, en í vélinni voru 75 skólabörn á aldrinum 12 til 16 ára á leið heim í jólafrí. 110 voru í vélinni en björgunarmenn fundu aðeins sjö eftirlifendur, sem fluttir voru í skyndi á sjúkrahús.

Þetta er annað stóra flugslysið í Nígeríu á síðustu vikum, sem hefur vakið upp spurningar um flugöryggi í landinu. Nígerskir flugumferðarstjórar hafa einnig verið gagnrýndir á síðustu mánuðum fyrir slælega flugumsjón, oft hafi mátt litlu muna að vélar rekist á og ekki er langt síðan farþegaþota frá Air France lenti í árekstri við kúahjörð á flugbrautinni í Port Harcourt. Fyrir skömmu hættu alþjóðaflugfélög tímabundið að fljúga til Lagos vegna hola á flugbrautum.

í október fórst vél í Lagos þar sem 117 létust. Í maí 2002 hrapaði farþegavél í íbúahverfi eftir að hafa tekið á loft í Kano, og létust þá 154.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×