Erlent

Hundruð myrt í Darfur

Mörg hundruð manns hafa verið myrtir í Darfur-héraði í Súdan undanfarnar vikur og margt bendir til að ástandið þar fari í sama farið ef ekki verður brugðist við hið allra fyrsta.

Ástandið í Darfur skánaði mikið eftir friðarsamkomulagið sem skrifað var undir á síðasta ári, en nú virðist aftur vera að sjóða upp úr. Talsmenn Sameinuðu Þjóðanna segja að skæruliðar og hermenn á vegum stjórnvalda hafi gert álaup á þrjú þorp og drepið þar fjölda manna.

Þúsundir manna hafa hrökklast frá heimilum sínum á aðeins nokkrum vikum og Kofi Annan sagði í síðustu viku að algjört stjórnleysi ríkti nú í Darfur. Ekki hefur fengist staðfest hve margir hafa verið myrtir undanfarnar vikur, en flest bendir til að talan skipti hundruðum. Um sjö þúsund hermenn á vegum Afríkusambandsins reyna að hafa hemil á ástandinu, en þeir eru allt of fáir og illa búnir og ráða ekki neitt við neitt. Afríkusambandið hefur þegar beðið um fimm þúsund manna liðsauka frá Evrópusambandinu og Bandaríkjunum.

Um tvær milljónir manna búa enn í neyðarskýlum í Darfur og ekkert útlit er fyrir að þetta fólk nái að koma sér upp þaki yfir höfuðið í bráð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×