Erlent

Þúsundir flýja yfirvofandi eldgos

Reykjarmökkur stígur upp úr eldgígnum á Vanuatu.
Reykjarmökkur stígur upp úr eldgígnum á Vanuatu. MYND/AP

Þúsundir íbúa á eynni Vanuatu, í Suður-Kyrrahafi, hafa verið fluttir frá heimilum sínum vegna yfirvofandi eldgoss. Óttast er að flytja þurfi alla íbúa eyjarinnar á brott.

Tvö þúsund tonn af ösku falla nú daglega í kringum fjallið Manaro á Vanuatu, og Manaro er ekki einusinni byrjað að gjósa. Stöðug jarðskjálftavirkni er í fjallinu, og yfirvöld óttast mikið sprengigos.

Manaro er sagt vera eitt hættulegasta eldfjall í heimi. Í gíg þess er mikið stöðuvatn. Ef botn þess rifnar og vatnið fossar niður í glóandi kjarna eldfjallsins, getur orðið gífurleg sprenging.

Vanuatu er á Suður-Kyrrahafi, rúma tvöþúsund kílómetra norðaustur af Sydney, í Ástralíu. Hún gefur nafn eyjaklasa þar sem búa um 200 þúsund manns.

Íbúar á Vanuatu sjálfri eru um tíuþúsund, og sýnt að ef sprengigos verður í Manaro, verður að flytja þá alla á brott. Tvö skip hafa þegar verið send til eyjarinnar, til þess að vera viðbúin brottflutningi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×