Innlent

Fjórar vélar Devon hingað

CIA-vélin, Casa 235 vél í eigu Devon Holding and Leasing, er ein fjögurra véla þess fyrirtækis sem lent hafa hér á landi í það minnsta níu sinnum.

Tugir véla á vegum skúffufyrirtækja CIA hafa millilent í Reykjavík og Keflavík síðan 2001. Á Spáni þykir ástæða til að efna til opinberrar rannsóknar vegna millilendinga þessarar vélar á Mallorca, sænsk flugmálayfirvöld kanna ferðir CIA-véla á sínu umsjónarsvæði, Danir og Norðmenn eru á verði, Þjóðverjar telja millilendingar fangaflugsvéla CIA lögbrot og rannsaka þau.

Utanríkisráðherra staðhæfði á Alþingi í dag að engir fangar eða grunaðir hryðjuverkamenn hafi verið um borð í draugaflugvélinni bandarísku, sem lenti á Reykjavíkurflugvelli í gær og hélt áfram til Kanada í morgun

Fangaflugsmálið var ofarlega á baugi á fundi Göran Perssons forsætisráðherra Svíþjóðar og Jens Stoltenbergs forsætisráðherra Noregs. Stoltenberg segist vera nýbúinn að ræða við bandaríska sendiherrann í Ósló, um vél sem lenti í Ósló í júlí.

Persson hefur nú fyrirskipað flugmálayfirvöldum í Svíþjóð að rannsaka öll möguleg fangaflug um Svíþjóð. Flugvélin sem Stoltenberg ræddi við sendiherra Bandaríkjanna um kom við bæði í Noregi og Svíþjóð, en sama vél lenti líka nokkrum sinnum á Guantanamo flugvelli Bandaríkjamanna á Kúbu. Hún var í Keflavík 23. júní 2002.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×