Innlent

Slysum erlendra ferðamanna fer fjölgandi

MYND/Heiða Helgadóttir

Erlendum ferðamönnum fjölgaði um rúmlega helming á árunum 1993-2003. Slysatíðni erlendra ferðamanna eykst í samræmi við það og hefur tvöfaldast á undanförnu fimm ára tímabili.

Árið 2000 urðu 84 umferðarslys en árið 2004 voru þau 176, eða sem nemur tvöföldun slysatíðni á 5 árum. Á sama tíma hefur bílaleigubílum einig fjölgað. Þetta kemur fram í skýrslu Ágústs Mogensen frá Rannsóknarnefnd umferðalsys. Frá árinu 2000 -2004 lentu rúmlega sex hundruð erlendir ferðamenn í bílslysum og þar af létust sjö. Í rúmlega fimm hundruð slysanna urðu ekki slys á fólki.

Athygli vekur að hvorki hraðakstur né ölvunarakstur er ofarlega á lista yfir orsakir, en mikið um önnur mannleg mistök og þætti sem tengjast vegum, umhverfi og ástandi þeirra. Lausamöl, ójafnt yfirborð og slæm færð eru algengir þættir auk þess sem lausganga búfjár er töluvert vandamál. Ökumenn eru ekki búnir undir íslenskar aðstæður og vegirnir eru þeim mjög erfiðir.

Þeir staðir sem skera sig úr hvað slysatíðni erlendra ferðamanna varðar eru á vegum nálægt vinsælum skoðunar- og útivistarsvæðum. Þeir slysastaðir sem þarfnast skoðunar að mati Rannsóknarnefndar umferðarslysa eru meðal annars Hólsfjallavegur á Hólssandi, Suðurstrandarvegur við Hlíðarvatn, Vatnsnesvegur á Vatnsnesi, Snæfellsnesvegur um Fróðárheiði, Gjábakkavegur/Lyngdalsheiði, Biskupstungnabraut, Gullfoss og Geysir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×