Innlent

Innflytjendaráð sett á laggirnar

Innflytjendaráð sem tryggja á að innflytjendur aðlagist íslensku samfélagi sem best verður sett á laggirnar í vikunni.

Innflytjendaráð er afsprengi skýrslu nefndar Félagsmálaráðuneytisins sem leggur áherslu á að aðalatriði stefnu um aðlögun innflytjenda ætti að vera það að fjölgun innflytjenda og margbreytilegt þjóðlíf sé jákvætt, að auðvelda þurfi gagnkvæma aðlögun innfæddra og aðfluttra, og að hafa skuli hliðsjón af reynslu nálægra landa í þessum málum.

Hlutverk ráðsins er að bera á borð tillögur um stefnu stjórnvalda í málefnum innflytjenda og hafa umsjón með framkvæmd þeirrar stefnu.

Í innflytjendaráði munu eiga sæti fulltrúar fjögurra ráðuneyta, fulltrúi sambands íslenskra sveitarfélaga og fulltrúi innflytjenda. Sá fulltrúi er Tatjana Latinovich aðflutt frá Króatíu og starfsmaður Össura. Hún segir að mikilvægt sé að íslensk stjórnvöld myndi sér stefnu í aðlögunarmálum innflytjenda sem taki mið af aðstæðum hér á landi og því sem verið er að gera í þessum málaflokki í löndum í kringum okkur.

Þá er innflytjendaráði ætlað að gera þjónustusamninga við ýmsa aðila um verkefni varðandi aðlögun innflytjenda. Þessi verkefni eru tölfræði um fólk af erlendum uppruna, boð um leiðsögn um íslenskt samfélag fyrir alla sem fá dvalarleyfi og atvinnuleyfi, miðlun upplýsinga til innflytjenda, og túlkaþjónusta á öllu landinu.

Samkvæmt tillögunum á innflytjendaráðið líka að gera tillögur um hvaða hlutverk sveitarfélög eigi að hafa í aðlögunarmálum, og beita sér fyrir rannsóknum um aðlögun innflytjenda og viðhorfum almennings til fjölmenningarlegs samfélags.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×