Innlent

Sprengjusérfræðingar kallaðir til vegna tundurdufls

Tveir menn úr sprengjusveit Landhelgisgæslunnar eru að leggja af stað með björgunarþyrlunni Líf til að gera óvirkt tundurdufl sem kom upp með veiðarfærum togarans Þórunnar Sveinsdóttur VE-401. Skipið er statt á Skrúðsgrunni út af Austfjörðum. Að sögn Dagmars Sigurðardóttur, upplýsingafulltrúa Gæslunnar, er ekki talið að skipverjum sé hætta búin en nauðsynlegt er að sprengjusérfræðingur Landhelgisgæslunnar geri tundurduflið óvirkt áður en hreyft er við því.

 

Skipstjóri Þórunnar Sveinsdóttur hafði fyrst samband við varðskipið Tý sem var í grenndinni og óskaði eftir aðstoð vegna torkennilegs hlutar sem komið hafði upp með vörpu togarans. Taldi hann að e.t.v. væri um að ræða tundurdufl eða hlustunardufl. Í framhaldi af því fóru varðskipsmenn frá Tý um borð í Þórunni og staðfestu í samráði við sprengjusveit Landhelgisgæslunnar að um tundurdufl væri að ræða, nánar tiltekið sprengiefnistunnu úr tundurdufli ásamt forsprengju og hvellhettu.

 

Talið var nauðsynlegt að fá sprengjusérfræðing til aðstoðar án tafar og fóru því tveir menn úr sprengjusveit Landhelgisgæslunnar með björgunarþyrlunni Líf austur fyrir land þar sem þeir munu síga niður í varðskipið Tý og fara þaðan um borð í Þórunni Sveinsdóttur. Skipin stefna nú í átt til Reyðarfjarðar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×