Innlent

Seldi ættingja eign

 

Fasteignasali sem seldi syni sínum íbúð braut gegn lögum um sölu fasteigna samkvæmt áliti eftirlitsnefndar Félags fasteignasala. Nefndin skorar á fasteignasalann að bæta þegar ráð sitt. Er sú áskorun nokkurs konar gult spjald og undanfari áminningar, en hún breytir hins vegar engu um sölu eignarinnar.

Par sem bauð í íbúðina á móti syni fasteignasalans kvartaði til eftirlitsnefndar Félags fasteignasala vegna sölumeðferðarinnar, þar sem það taldi ekki geta staðist lög að fasteignasali hefði milligöngu um að selja barni sínu fasteign, þar sem hann á að gæta hagsmuna allra aðila jafnt. Sonur fasteignasalans keypti íbúðina, sem er við Bólstaðarhlíð í Reykjavík.

Niðurstaða nefndarinnar er ótvíræð: fasteignasalinn braut lög - það skiptir engu hvort seljandi íbúðarinnar hafi vitað um tengsl kaupandans og fasteignasalans og samþykkt söluna þrátt fyrir þau, enda er engin undantekning þess efnis í núgildandi lögum.

Eftirlitsnefndin skorar á fasteignasalann að bæta ráð sitt, geri hann það ekki er hægt að áminna hann og brjóti hann ítrekað af sér má svipta hann tímabundið löggildingu til fasteignasölu. Nefndin sektar hins vegar ekki fasteignasala sem gerast brotlegir, eins og tíðkast í Danmörku til dæmis, heldur verða kvartendur að fara fyrir dómstóla vilji þeir fá kaupunum rift og fasteignasalanum refsað með einhverjum hætti. Sigurður Helgi Guðmundsson, formaður Húseigendafélagsins sem haft hefur milligöngu um málið fyrir hönd kvartenda, segir þau ánægð með niðurstöðuna, hún sýni klárlega að brotið hafi verið á þeim og sé skýr skilaboð til fasteignasala. Hann á síður von á að þau fari með málið áfram þótt staðfest hafi verið að lög hafi verið brotin, tilgangurinn hafi fyrst og fremst verið að fá brot fasteignasalans á hreint, öðrum til varnaðar og leiðbeiningar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×