Innlent

Milljarður með viðhaldi

Heilsuverndarstöðin í Reykjavík fór á sölu á almennum markaði um síðustu helgi. Samkvæmt heimildum blaðsins var framkvæmt verðmat á eigninni fyrr á árinu þar sem húsið var metið á yfir sjö hundruð milljónir króna.

Fasteignasalar sem talað var við voru á einu máli um að þær endurbætur og viðgerðir sem takast þarf á við að kaupunum loknum kosti hæglega um þrjú hundruð milljónir. Því er ljóst að heildarkostnaður væntanlegs kaupanda getur numið einum milljarði króna.

"Það þarf að skila inn tilboðum fyrir 21. návember. Fljótlega í framhaldi af því verður tekin ákvörðun um hvaða tilboði verður tekið," segir Jón Guðmundsson hjá Fasteignamarkaðnum.

Fjórum fasteignasölum hefur verið falið að leita tilboða: Fasteignamarkaðnum, Gimli, Eignamiðluninni og Valhöll. Húsið er 4.625 fermetrar að stærð. Því fylgir byggingarréttur á fjögurra hæða viðbyggingu með gólffleti upp á 1.480 fermetra sem gerir ráð fyrir 1.250 fermetra bílakjallara.

"Auðvitað eru það tilboðin sem ráða endanlegu verði á eigninni," segir Jón.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×