Innlent

Halldór segir málið alþjóðamál

Íslenskum stjórnvöldum hafa enn engin svör borist frá bandarískum stjörnvöldum vegna fangaflugsins svokallaða. Halldór Ásgrímsson segir aldrei spurt um farþega í vélum sem hér fari um í borgaralegu flugi. Aðalatriðið nú sé hvort ólögleg fangelsi finnist í Evrópu.

Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra segir enn ekkert svar hafa borist frá bandarískum stjörnvöldum varðandi draugaflugið svokallaða og millilendingar slíkra flugvéla hér á landi á leið með fanga til meintra leynilegra fangelsa í Evrópu. Hann á þó von á því að eitthvert svar muni berast.

Halldór segir stóru spurninguna nú hins vegar snúast um rannsókn Evrópusambandsins á því hvort fangelsi sem starfi utan alþjóðasáttmála og laga séu á starfssvæði þess. Haft var eftir Halldóri í fréttum Ríkissjónvarps síðastliðin föstudag að fréttir af borgaralegu flugi með slíka fanga væru enn sem komið er sögusagnir. Hann vísaði því sömuleiðis á bug að yfirflugsheimildir í tengslum við innrásina í Írak veittu Bandaríkjamönnum þessa heimild.

Að loknum fundi í ráðherrabústaðnum mátti þó greina á Halldóri að hann efaðist ekki lengur um að umræddar vélar hefðu átt leið um Ísland. En þar sagði hann að flugvélar eins og þær sem um væri að ræða þyrftu ekki að tilkynna eins og vélar á vegum yfirvalda. Hann sagði aðspurður um hver viðbrögð stjórnvalda yrðu við þessum fregnum, hvort strangara eftirlit yrði haft með slíkum vélum, að hann liti á málið sem alþjóðamál og því yrði að vinna það á þeim grundvelli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×