Innlent

Telur þorskstofninn ekki vera að hrynja

MYND/Vilhelm

Framkvæmdastjóri Landssambands íslenskra útvegsmanna telur ástæðulaust að óttast að þorskstofninn sé að hrynja því hrygningastofninn hafi ekki verið stærri í tonnum talið en núna, þótt hann sé ekki eins frjósamur og á árum áður. Fram kom á ráðstefnu Hafrannsóknastofnunar og Sjávarútvegsráðuneytisins í gær að verulega verði að draga úr þorskveiðum til að byggja upp hrygningarstofninn.

Friðrik Arngrímsson, framkvæmdastjóri LÍÚ, segist geta fallist á það að of mikið hafi verið veitt af þorski í hálfa öld eða svo en við núverandi aðstæður dygði að líkindum að halda sig við tíu ára gamla aflareglu sérfræðinga sem segir að árlega skuli ekki veiða meira en 25 prósent af veiðistofninum, sem er fjögurra ára þorskur og eldri. Framkvæmdin hafi hinsvegar verið um það bil 30 prósent á ári, bæði vegna ofmats og aflaheimilda fyrir utan kerfið, meðal annars til vissra smábáta.

Um það hvort ekki sé rétt að draga úr loðnuveiðum svo þorskurinn hafi nægilegt æti og þurfi ekki að fara að éta undan sér segir Friðrik að erfitt sé að segja um það því loðnan hafi undanfarin misseri haldið sig utan þorskslóðar og því ekki nýst honum til ætis sem skyldi. Þá hafi komið fram á ráðstefnunni í gær að hvalir ætu eina til tvær milljónir tonna af loðnu hér við land á ári, sem væri mun meira en talið hefur verið. Loks hafi rækjustofnarnir umhverfis landið snarminnkað á örfáum árum, en þorskurinn étur líka rækju.

Miklir hagsmunir eru í húfi fyrir þjóðarbúið að skera þorskveiðar umtalsvert niður því þær skila um það bil 40 pósentum af öllu aflaverðmæti landsmanna. Útflutningsverðmæti þorskafurða er að minnstakosti 40 milljarðar króna á ári á núverandi gengi, sem er óvenju óhagstætt, en gjaldeyririnn sem þó fæst fyrir hann, nægði til að kaupa um það bil 20 þúsund nýja fólksbíla til landsins á ári.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×