Innlent

Hafa áhyggjur af erfðaefni landnámshænunnar

Eigenda og ræktendafélag landnámshænsna hefur áhyggjur af gömlu erfðaefni landnámshænunnar sem gæti farið forgörðum ef H5N1 fuglaflensusmit berst til landsins. Þar sem landnámshænsnastofninn er smár er hann í mestri hættu, berist smit til landsins. Félagið skorar á landbúnaðarráðuneytið og embætti yfirdýralæknis að ganga strax til samstarfs við stjórn félagsins um aðgerðir til varnar stofninum. Félagið hefur sótt málið talsvert fast og beðið eftir fundi yfirdýralæknis í tvo mánuði.

Tvö hundruð og fimmtíu manns eru í félaginu og Jóhanna Harðardóttir, formaður félagsins, segir að nú sé landnámshænsnastofninn í mikilli sókn því félagið hafi unnið ötullega að stækkun stofnsins undanfarin tvö ár. Hún segir stofninn nú telja á bilinu tvö til þrjú þúsund hænur.

Félagið vill fara fornvarnarleiðina til að vernda stofninn fyrir fuglaflensunni, berist hún hingað. Tvær leiðir eru færar. Annað hvort að bólusetja allar landnámshænur eða setja upp sóttkví þar sem hægt væri að vista hænurnar á meðan hætta gengur yfir. Bóluefni er til sem hefur gefist vel fyrir fugla en ókosturinn er sá að þessi leið gæti reynst dýr og einnig er hún á ábyrgð eigenda. Eigi að grípa til þessara aðgerða bendir félagið á að það verði að gera sem fyrst og því áríðandi að yfirdýralæknir gangi sem fyrst til samstarfs við félagið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×