Innlent

Mestar verðhækkanir í Kópavogi

Sjálandshverfi í Garðabæ.
Sjálandshverfi í Garðabæ. MYND/Vilhelm
Fasteignaverð í Garðabænum hækkaði um fimmtán prósent á síðasta ársfjórðungi, meira en á nokkrum öðrum stað á höfuðborgarsvæðinu.

Íbúðaverð í Garðabænum hefur hækkað um fimmtíu og sjö prósent frá fyrsta ársfjórðungi 2004. Það er aðeins í Vesturbæ Kópavogs og Kópavogi sunnan Kópavogslækjar sem hækkunin hefur verið álíka mikil eða um fimmtíu og þrjú prósent.

Magnús Emilsson, fasteignasali á fasteignasölunni Hraunhamri, segir ástæðuna fyrir þessum miklu hækkunum í Garðabæ þar að framboð íbúða hafi verið lítið. Það hafi fyrst og fremst verið nýjar, dýrar íbúðir á Sjálandi sem hafi verið til sölu en aðrar íbúðir síður. Hann segir erfiðara að skýra miklar verðhækkanir í Kópavogi. Þar hafi verið meira framboð en íbúðaverð samt sem áður hækkað meira en víðast annars staðar.

Sé horft til verðhækkana í síðasta ársfjórðungi skera Garðabær, Kópavogur sunnan Kópavogslækjar og Grafarholt sig úr fyrir miklar verðhækkanir en þær eru á bilinu ellefu til fimmtán prósent. Annars staðar var hækkunin alls staðar undir átta prósentum og á tveimur svæðum lækkaði íbúðaverð lítillega. Það er í Norðurmýri þar sem íbúðaverð lækkaði um tæpt eitt prósent og á Seltjarnarnesi þar sem það lækkaði um hálft prósent.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×