Innlent

Greiða 50 þúsund með hverri bók

MYND/Teitur
Ríkið greiðir um fimmtíu þúsund krónur með hverjun eintaki af Sögu stjórnarráðsins. Það er meira en þrefalt hærra verð en kaupendur greiða fyrir bækurnar út úr búð. Stjórnvöld ákváðu að verja sextíu milljónum króna til að rita sögu stjórnarráðsins frá 1964 til 2004 til að minnast þess að hundrað ár voru í fyrra frá því Ísland fékk heimastjórn. Þar með var bætt við söguna sem Agnar Klemenz Jónsson, fyrrum ráðuneytisstjóri, ritaði og náði til áranna frá 1904 til 1964. Nú, hátt í tveimur árum eftir útgáfu tveggja fyrstu bindanna og rúmu ári eftir að þriðja og síðasta bindið kom út hafa selt um þúsund eintök af sögunni samkvæmt upplýsingum frá Sögufélaginu sem sér um sölu bókarinnar. Um helmingur seldist áður en bókin kom út, að stærstum hluta til ráðuneyta, ríkisstofnana, sveitarstjórna og bókasafna víðs vegar um landið. Kostnaður ríkisins vegna útgáfu bókanna varð á endanum fimmtíu og fjórar milljónir króna, sex milljónum króna lægri en ráð var fyrir gert. Það breytir því þó ekki að greitt er með hverju eintaki, eða í kringum fimmtíu þúsund krónur þegar tekið er tillit til sölutekna. Bækurnar kosta fimmtán þúsund krónur út úr búð. Bækur Agnasar Klemenz Jónssonar um sögu stjórnarráðsins frá 1904 til 1964 voru endurútgefnar við sama tækifæri og kostaði sú útgáfa í kringum fjórar milljónir. Sala bókanna hefur verið lítil sem engin. Fyrir skemmstu sáu forsvarsmenn Sögufélags sig knúna til að leita á náðir fjárlaganefndar Alþingis til að biðja um styrk til að standa straum af geymslukostnaði vegna allra bókanna sem hafa ekki selst. Hjá Sögufélaginu munu menn óvanir því að sitja uppi með mikið magn óseldra bóka sem leigja þurfi geymslur undir. Það mál hefur síðan leyst farsællega að sögn gjaldkera Sögufélagsins.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×