Erlent

Örlög ráðast í nokkrum héruðum

Talning er hafin eftir kosningu um stjórnarskrá Íraks í gær. Örlög stjórnarskrárinnar eru í höndum íbúa nokkurra héraða sem geta fellt hana með því að kjósa nei. Gríðarleg öryggisgæsla varð til þess að uppreisnar- og hryðjuverkamenn gátu ekki staðið við hótanir um blóðbað í gær og sögðu talsmenn Sameinuðu þjóðanna kosningarnar hafa farið ótrúlega friðsamlega fram. Tveir þriðju hlutar kjósenda í þremur héruðum þurfa að hafna stjórnarskránni til að fella hana og að líkindum yrðu það héruð þar sem súnnítar eru í meirihluta. Kosningaþátttaka þeirra var að sögn eftirlitsmanna góð en að líkindum ekki svo góð að andstæðingar stjórnarskrárinnar eigi þess kost að fella hana. Condoleezza Rice, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, gekk meira að segja svo langt í Lundúnum í morgun að segja að líkast til hefði stjórnarskráin verið samþykkt - og þó hafa hvorki verið birtar útgönguspár né fyrstu niðurstöður talningar. Rice sagði að kjörsókn hefði verið á milli 63 og 64 prósent, sem er betri kjörsókn en í þingkosningunum í janúar. Verði stjórnarskráin samþykkt er næsta skref þingkosningar í ný í desember, en þá verður kosið þing sem á að sitja í fjögur ár og vona stjórnvöld í Washington að sú kosning marki tímamót og að Írak verði í kjölfarið nær því að verða friðsamlegur bandamaður Vesturlanda. Þó að kjördagur væri friðsamlegur vöknuðu íbúar Bagdad-borgar þó við sprengjugný í morgun þegar ráðist var á græna svæðið, þar sem ríkisstjórnin hefur aðsetur sitt.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×