Erlent

Á annað hundrað í valnum

Rússneskir her- og lögreglumenn kembdu í gær í gegnum Nalchik, héraðshöfuðborg Kákasushéraðsins Kabardino-Balkariya, í leit að meintum íslömskum uppreisnarmönnum sem  á fimmtudag gerðu óvæntar árásir á stjórnsýslubyggingar og lögreglustöðvar í borginni. Að minnsta kosti 108 manns lágu í valnum eftir átökin. Talsmenn stjórnvalda fullyrtu í gær að öll vopnuð mótstaða hefði verið kveðin niður. Menn hefðu þó áhyggjur af því að vígamenn gætu hafa látið sig hverfa í fjöldann meðal óbreyttra borgara og reynt að ná þar vopnum sínum á ný. Vladimír Pútín Rússlandsforseti hét því að allar tilraunir til að endurtaka slíkar árásir yrðu kveðnar niður með hörku. En árásirnar sýndu glögglega að uppreisnarátök eru að breiðast frekar út um Kákasussvæðið. Er talsmenn yfirvalda lýstu í gær árangursríkum aðgerðum til að uppræta uppreisnarmenn í Nalchik varð ljóst að árásarmennirnir hefðu tekið að minnsta kosti 15 gísla í skrifstofum hér og þar í borginni. Af þeim 108 mönnum sem féllu í átökunum, eftir því sem AP-fréttastofan komst næst, voru 72 árásarmenn og 24 lögreglumenn. Ýmsum sögum fór af mannfallinu en að því er héraðsyfirvöld greindu frá létu 18 óbreyttir borgarar lífið og 139 særðust. Um þrjátíu uppreisnarmenn voru handteknir. Kabardino-Balkariya er vestur af Téténíu, þar sem stríð aðskilnaðarsinnaðra uppreisnarmanna gegn rússneskum yfirráðum hefur staðið í á annan áratug. Í Dagestan, austan við Téténíu, hafa uppreisnarmenn einnig látið áberandi meira að sér kveða á þessu ári.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×