Lífið

Nýr Bond valinn

Svalasti njósnari sögunnar er nú ljóska. James Bond, ímynd hinnar ofursvölu karlrembu, tekur stakkaskiptum í næstu mynd. Þá verður hann ljóshærður í fyrsta sinn, því nýr leikari tekur þá við hlutverkinu. Ekki stóð til að greina frá því hver leikur Bond fyrr en á fréttamannafundi síðdegis. En mamma arftaka Pierce Brosnans gat ekki þagað og kjaftaði frá því að sonur hennar, Daniel Craig, væri sá útvaldi. Sjálfsagt kannast fæstir við Craig, enda hefur hann ekki verið áberandi á hvíta tjaldinu til þessa. Hann hefur látið þeim mun meira á sér bera á breskum sjónvarpsskjám og ekki síst í bresku slúðurblöðunum. Hjörtu ritstjóra þeirra taka væntanlega kipp við tíðindin þar sem Craig er þekktur kvennamaður, eins og Bond: hann átti eitt sinn í sambandi við fyrirsætuna Kate Moss og er sagður hafa átt í sambandi við Siennu Miller. Einhverjum kann að þykja óhugguleg tilhugsun að ljóska með leyfi til að drepa sé á lausu, en hægt verður að fylgjast með því hvernig það gengur á næsta ári, þegar tuttugasta og fyrsta Bond-myndin, Casino Royale, verður frumsýnd.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.